Kristján Jóhannesson og Cole Knutson með masterklass í SSD
18401
post-template-default,single,single-post,postid-18401,single-format-standard,bridge-core-3.1.1,qode-page-transition-enabled,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-child-theme-ver-1.0.0,qode-theme-ver-30.0.1,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-7.6,vc_responsive

Kristján Jóhannesson og Cole Knutson með masterklass í SSD

Kristján Jóhannesson og Cole Knutson með masterklass í SSD

Við fáum góða gesti 12. apríl hingað í Söngskóla Sigurðar Demetz þegar Kristján Jóhannesson og Cole Knutson koma og halda masterklass fyrir nemendur skólans. Áherslan verður á ljóðasöng en þeir eru komnir hingað til lands til að halda ljóðatónleika í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar þann 11. apríl.

Kristján Jóhannesson fæddist í Reykjavík árið 1992, en á ættir að rekja til Önundarfjarðar. Hann hóf söngnám við Söngskóla Sigurðar Demetz árið 2008. Kennarar hans þar voru Sigrún Hjálmtýsdóttir, Kristján Jóhannsson og Keith Reed. Árið 2014 fluttist hann til Vínarborgar til framhaldsnáms við Konservatoríið þar í borg hjá Uta Schwabe. Á námsárunum söng Kristján m.a. í óperum Mozarts með Sumarakademíu Vínarfílharmóníunnar, titilhlutverkið í Don Giovanni með Israel Chamber Orchestra í Tel Aviv, í uppfærslum Neue Oper Wien, I Puritani eftir Vincenzo Bellini í Hofi á Akureyri með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og hlutverk Nautabanans í Carmen e. Georges Bizet hjá Íslensku Óperunni. 

Árið 2017 hóf hann störf við Theater an der Wien og Kammeroper í Vínarborg. Af helstu verkefnum hans þar má nefna Niflungahring Wagners og Tristan og Ísoldi, Salome e. Richard Strauss, Don Carlos e. Giuseppe Verdi, Faust e. Gounod og Mærina frá Orleans e. Tchaikovsky. Einnig var hann fenginn í íhlaup fyrir hinn valinkunna baritónsöngvara Christian Gerhaher í uppfærslu Theater an der Wien á Elias e. Felix Mendelssohn.

Kristján fluttist svo til St. Gallen í Sviss árið 2021, þar sem hann er fastráðinn. Hann hefur verið viðriðinn tónlistarhátíðina í Aix-en-Provence sem gestasöngvari og verður það aftur annað sumar.

Hann hefur sótt masterklassa hjá Thomas Hampson, Angelika Kirchschlager og Adrian Eröd. Kristján tók þátt í ljóðasöngsnámskeiði Franz Schubert Institut í Baden við Vínarborg 2017-2018 þar sem þeir Cole kynntust, og þar sem þeir unnu með listamönnum á borð við Íslandsvinina Elly Ameling og Andreas Schmidt, einnig með Robert Holl, Helmut Deutsch, Julius Drake, Wolfram Rieger og Roger Vignoles. 

Cole Knutson er uppalinn í North Battleford, Saskatchewan í Kanada þar sem hann lagði stund á píanóleik frá 12 ára aldri og lauk háskólaprófi í saxófónleik. Hann hlaut meistaragráðu í meðleik frá Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum, hvar hann lærði hjá Julius Drake og Eugene Asti, og lék með nemendum Yvonne Kenny og Rudolf Piernay. Cole starfaði einnig sem meðleikari við skólann meðfram náminu. 

Frá og með síðasta hausti hlýtur hann leiðsögn við Liedzentrum Liedakademie í samstarfi við Heidelberger Frühling og Pierre Boulez Saal í Berlín, hvurs stjórnandi er baritónsöngvarinn Thomas Hampson. Aukinheldur var Cole hluti af SongStudio í Carnegie Hall sem sópransöngkonan Renée Fleming leiðir. Hann tekur þátt í Académie Orsay-Royaumont í Frakklandi á næsta ári. Hann hefur komið fram í Carnegie Hall, á Schubertvikunni í Pierre Boulez Saal, Wigmore Hall í Lundúnum og Salle Cortot í París. Ennfremur við The Oxford Lieder Festival, Salle Bourgie í Montréal, LSO St. Luke’s og víðar á Bretlandseyjum, í Þýskalandi, Sviss, Frakklandi, Austurríki og Norður-Ameríku.

Cole hefur m.a. hlotið verðlaun frá Kattenburg Concours de Voix í Lausanne í Sviss, Kathleen Ferrier Awards í Wigmore Hall, Concours Musical International de Montréal, International Mozart Competition, London Song Festival Competition, English Song Prize við Guildhall School of Music & Drama og Oxford Lieder Young Artist Platform.

Hann er styrkhafi Sylva Gelber Music Foundation, Métis Nations Saskatchewan, Gabriel Dumont Institute, SK Arts, Guildhall Trust og Art Song Foundation of Canada. Cole tók þátt í Franz Schubert Institut í Baden bei Wien í Austurríki árin 2017 og 2018. Sem saxófónleikari hefur Cole hlotið verðlaun frá National Music Festival of Canada eftir frumraun sína í Carnegie Hall einungis tvítugur að aldri, hann var einnig aðalsaxófónleikari National Youth Band of Canada.

No Comments

Sorry, the comment form is closed at this time.