Sagan
15856
page-template,page-template-full_width,page-template-full_width-php,page,page-id-15856,bridge-core-3.1.1,qode-page-transition-enabled,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-child-theme-ver-1.0.0,qode-theme-ver-30.0.1,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-7.0,vc_responsive
 

Sagan

Stofnun skólans

Söngskóli Sigurðar Demetz var stofnaður árið 1995 undir forystu Guðbjargar Sigurjónsdóttur. Skólinn hét Nýi söngskólinn „Hjartansmál“ til að byrja með. Verndari skólans frá upphafi var Sigurður Demetz, söngvari og söngkennari. Demetz kenndi nemendum við skólann á meðan hann hafði heilsu til og fylgdist grannt með öllu sem fram fór innan skólans. Sigurður lést vorið 2006 á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík.

Sú vinátta, leiðsögn, hvatning og kennsla sem hann veitti alla tíð af miklu örlæti er ómetanleg. Nafni skólans var breytt í „Söngskóli Sigurðar Demetz“ til minningar um Demetz og af þakklæti fyrir það mikla starf sem hann vann í þágu sönglistar á Íslandi í 55 ár. Skólinn starfar samkvæmt lögum um tónlistarskóla og kennir eftir námsskrá útgefinni af Menntamálaráðuneytinu 2002.

Skólinn geri þjónustusamning við Reykjavíkurborg sem greiðir laun kennara. Rekstur skólans er greiddur með námsgjöldum. Við skólann starfa 20 kennarar. Auk þess býður skólinn upp á gestakennara og ýmis námskeið á hverjum vetri. Óperudeild skólans hefur verið starfandi frá 2001 og Kór skólans frá 2007.

Skólastjórar skólans eru:
Gunnar Guðbjörnsson
Hallveig Rúnarsdóttir og Þór Breiðfjörð (aðstoðarskólastjórar)

Stjórn skólans skipa:
Anna Klara Georgsdóttir, verkefnastjóri
Guðbjörg Sigurjónsdóttir, meðleikari
Þór Jónsson, lögfræðingur

Sigurður Demetz

Vincenzo Sigurður Demetz, óperusöngvari og söngkennari fæddist í St. Úlrik í Grödendal, þar í Ölpunum á landamærum Austurríkis og Ítalíu sem heitir Suður-Tíról þann 11. október 1912. Hann var sonur hjónanna Franz og Mariu Demetz.  Hann bar þá nafnið Vincenzo Maria Demetz.  Árið 1936 vann hann til verðlauna í söng- og píanókeppni í Vínarborg og eftir þriggja og hálfs árs nám hjá Prófessor Pintorni í Mílanó var honum boðin áheyrnarprufa í Ríkisóperunni í Dresden. Þar hlustuðu á hann aðahljómsveitarstjórinn á þeim tíma, Karl Böhm, og óperustjórinn, Herr Gottschalk. Í kjölfarið var honum var boðinn 5 ára samningur við þetta nafntogaða óperuhús. Frumraun söngvarans unga var  ráðgerð í desember árið 1937  í óperu Massenet, Manon eftir Massenet en veikindi hans urðu til að binda endi á samning hans við Ríkisóperuna.

Vincenzo gafst ekki upp og hélt áfram námi sínu hjá prófessor Pintorni og náði loksins árið 1940 að þreyta  frumraun sína á óperusviði í óperunni La Traviata eftir Verdi með söngkonunni Mafalda Favero í Adria á Ítalíu. Árið 1942 er hann ráðinn af Tullio Serafin við Konunglegu óperuna í Róm en árið 1943 var honum þar boðið að syngja áheyrnarprufu fyrir ungan og efnilegan stjórnarnda, Herbert von Karajan í Farnese höllinni í Róm. Karajan var á þessum tíma hljómsveitarstjóri í Aachen í Þýskalandi og var nú Vincenzo boðin mikilvæg áheyrnarprufa hjá öðrum stjórnendum óperunnar.  Honum var nú umsvifalaust boðinn samningur við óperuna til þriggja ára og yrði fyrsta verkefni hans óperan La Boheme eftir Puccini undir stjórn Karajan. Frumsýning var áætluð 28. September árið 1943 en í júni sama ár var gerð sprengjuárás á Aachen þar sem óperuhúsið var gjöreyðilagt. Eftir þetta áfall  hélt Vincenzo aftur til Mílanó en þar starfaði hann m.a. hjá útvarpsstöðvum  til stríðsloka.

Vincenzo M. Demetz söng víða á árunum 1946 – 47 en það var svo árið 1948  sem hann fyrst réðist til Scala óperunnar í Mílanó. Þar starfaði hann sem gestasöngvari til ársins 1952.  Verkefni hans þar voru:  Titilhlutverk í óperunni Ödipus Rex  efir Stravinsky, Tom Rakewell í The Rakes Progress eftir sama höfund og hlutverk í óperunum Prosperina e Lo Straniero eftir Juan José Castro, Die Meistersinger von Nürnberg og Tistan og Isolde eftir Wagner. Einnig söng hann á ferli sínum fjölbreytta flóru óperuhlutverka í óperunum La Traviata, Rigoletto, Il Trovatore, Ballo in Maschera, Otello, allar eftir Verdi, Lucia di Lammermoor eftir Donizetti, Madame sans Géne eftir Giordano, Carmen eftir Bizet, Tosca og Madame Butterfly eftir Puccini, Cavalleria Rusticana eftir Mascagni, Hollendingurinn fljúgandi eftir Wagner,Chowantchina eftir Moussoursky, Incoronazione di Poppea eftir Montiverdi, Boris Godunov eftir Mussorgsky, Lulu eftir Alban Berg, Elektra og Salome eftir R. Strauss.

Tilviljun ein réði því að söngvarinn frá Suður-Tíról kom til Íslands eftir að hann hafði kynnst Svanhvíti Egilsdóttur söngkonu en hún hafði sótt söngtíma til hans og hvatt hann til að heimsækja landið en það varð síðar úr að Vincenzo M. Demetz fluttist til Íslands frá Ítalíu árið 1955. Hann hóf kennslustörf víða um land auk þess sem hann söng hér nokkur óperuhlutverk og á tónleikum og stjórnaði kórum. Kennslunni sinnti hann m.a. í Tónlistarskóla Akureyrar í 13 ár, Tónlistarskólanum í Keflavík, Tónlistarskólanum í Mosfellsbæ og Nýja tónlistarskólanum í Reykjavík frá árinu 1982 til 1992. Jafnframt varð hann vinsæll fararstjóri útlendinga í kynnisferðum um landið. Íslenskur ríkisborgararéttur kallaði á nýtt nafn og varð það Sigurður Demetz Franzson og síðar tók hann upp nafnið Sigurður Vincenzo Demetz Franzson.  Vinir Sigurðar þekktu hann hinsvegar undir gælunafninu Demmi.

Sigurður Demetz kvæntist Þóreyju Sigríði Þórðardóttur árið 1960. Hún lést árið 1992. Systkini Sigurðar Demetz, öll yngri, eru Ulrike læknisfrú, Ivo forstjóri, Franz listamaður og Giancarlo húsvörður sem nú er látinn.  Sigurður var söngfrömuður og lærimeistari margra kunnustu óperusöngvara íslensku þjóðarinnar. Hann var sæmdur stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu söngmenntunar á Íslandi, riddarakrossi ítalska ríkisins og kjörinn heiðursborgari í fæðingarbæ sínum. Hann var verndari Nýja söngskólans Hjartansmáls sem eftir andlát hans var gefið nafnið Söngskóli Sigurðar Demetz.