Söngleikjadeild
15806
page-template,page-template-full_width,page-template-full_width-php,page,page-id-15806,bridge-core-3.1.1,qode-page-transition-enabled,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-child-theme-ver-1.0.0,qode-theme-ver-30.0.1,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-7.6,vc_responsive
 

Söngleikjadeild

Veturinn 2024-2025

Deildarstjóri/aðstoðarskólastjóri:

Þór Breiðfjörð

Kennarar:

Þór Breiðfjörð

Jóhanna Vigdís Arnardóttir

Sigríður Eyrún Friðriksdóttir

Píanóleikari/tónlistarstjórn sýninga:
Ingvar Alfreðsson

Leiklist/leikstjórn:

Orri Huginn Ágústsson

Danshöfundur/dansþjálfun í söngleik:

Mismunandi er eftir verkefnum hvort sérstakur danshöfundur er ráðinn og hversu mikill dans er í verkinu. Alltaf er miðað við getu hópsins og bakgrunn í sviðshreyfingum/dansi.

Námslýsing

Söngleikir innihalda vinsælar tónlistarstefnur í yfir hundrað ár og koma því víða við í söngstíl. Söngleikjadeildin var stofnuð árið 2013 og nýtur mikilla vinsælda. Söngleikjalistin er sérstakt listform. Hún skilgreinist sem „sú sviðslist sem gerir öllum sviðslistum jafnt undir höfði“ og er þannig brú á milli listforma. Söngleikir eru með vinsælli sviðslistum í dag með yfir hundrað ára sögu og því var löngu tímabært að söngleikjadeild væri stofnuð á Íslandi. Eins og í öðrum deildum er söngleikjadeild með sviðsvana og reynda kennara og er mikil áhersla lögð á að koma fram á sviði.

Námið hentar vel þeim sem vilja undirbúa sig fyrir leiklistar- eða söngleikjanám á Íslandi sem og erlendis. Einnig er það gott fyrir söngvara sem vilja fá meiri reynslu og þjálfun á sviði, losa um líkamann og venja sig af kækjum sem hafa ef til vill orðið til í tímans rás. Hægt er að taka grunn- og miðpróf eins og í einsöngsnámi og nú nýlega framhaldspróf. Deildin býður líka upp á eins konar millistig, diplómupróf í söngleikjum, sem miðar að undirbúningi fyrir inntökupróf erlendis. Diplómupróf er í raun svipað og framhaldspróf en með hliðarfögum sem miðast meira við leiklistar- og söngleikjanám. Það má segja að söngleikjanám í deildinni brúi bilið milli óperu- og leiklistarnáms annars vegar og náms í hryntónlist hins vegar. Kennd er sviðsframkoma, tónfræði og tónlistarsaga en áhersla lögð á að venjast því að koma fram.

Tilgangur námsins er sem sagt að þjálfa nemendur í leik, söng og hreyfingum á söngleikjasviði. Áhersla er lögð á að hvetja til sjálfstæðra vinnubragða og að byggja upp möppu með lögum sem hægt er að nota við ýmis tækifæri, bæði tónleika og inntökupróf. Leitast verður við að leyfa nemendum að reyna hina ýmsu söngstíla söngleikjanna, finna styrkleika þeirra og þroska sig á ótroðnum slóðum. Hvatt er til frumkvæðis og hópvinnu. Hver nemandi fær sinn einkakennara í söng sem hefur umsjón með framvindu söngnámsins yfir veturinn. Námið er sniðið með það fyrir augum að geta stundað það með vinnu eða skóla en góð mæting og frumkvæði hefur bein áhrif á val í hlutverk í vorsýningu deildarinnar.

Nemendur í grunnnámi

Einn einkatími með kennara á viku (40 mínútur). Einn tveggja tíma hóptími vikulega.  Fastur vikulegur undirleikstími með píanóleikara. Ennfremur eru sérstakir leiklistarstímar ákveðin miðvikudagskvöld. Tónfræði og önnur skyldufög eru metin eftir tónfræðimenntun nemanda og ákveðin af skólastjóra við umsókn. Ef engin tónfræði hefur verið tekin í öðrum skólum byrjar nemandi í Tónfræði-Grunnur I, sjá stundaskrá hér. Á tónleikum flytja nemendur eitt sólólag og hugsanlega annað lag sem er samstarfsverkefni (dúett, tríó o.s.frv.) ef slíkt er mögulegt.

Nemendur í miðnámi

Einn einkatími með söngkennara á viku (60 mínútur). Fastur vikulegur einkatími með píanóleikara til að æfa lög. Tveggja tíma vikulegur hóptími á þriðjudögum. Tónfræði/tónheyrn og önnur skyldufög sem tilheyra miðnámi.

Á tónleikum flytja nemendur eitt sólólag og hugsanlega annað lag sem er samstarfsverkefni (dúett, tríó o.s.frv.) eða stutt sólólag. Önnur sérstök hópatriði í samráði við kennara.

Nám eftir miðpróf

Eftir að miðprófi lýkur geta nemendur að hefja undirbúning að diplómuprófi í söngleikjum eða framhaldsprófi í söngleikjum. Mörg af hliðarfögum fyrir þessi próf eru þau sömu, en framhaldspróf gerir kröfur um fleiri fög samkvæmt námskrá tónlistarskólanna.

Almennt um tónleika

Val á lögum er samkvæmt samþykki kennara og þarf að skrá með auglýstum fyrirvara og samkvæmt leiðbeiningum í auglýsingu. Tónleikalag telst ekki skráð á nemanda fyrr en þetta hefur verið gert svo það borgar sig að hugsa fram á við og undirbúa sig tímanlega. Nemendur bera ábyrgð á að skila tímanlega inn nótum til píanóleikara á formi sem viðkomandi samþykkir. Best er að skila inn nótum sem hafa bæði hljóma og nótnaútsetningar.

Hóptímar

Hóptímar eru tveir í viku, 120 mínútur hvor. Fyrir áramót mætir nemandi í annan þessara tíma og þar er unnið með nemendum í sólólögum og hópatriðum (dúettum og upp úr). Þeir eru undir handleiðslu kennara, meðleikara eða annarra þeirra sem deildin kallar til við námið. Ætlast er til þess að nemendur nýti sér sem best tíma með meðleikara til að undirbúa sig fyrir hóptíma ef lögin eru flókin í samspili. Þannig er tryggt að hóptímar séu nýttir til að hjálpa nemendum að bæta sig en ekki til að læra óundirbúin lög. Nemendur sem syngja blaðlaust hafa forgang í hóptíma. Eftir áramót eru tímar nýttir í æfingu á söngleik. Þegar líður á æfingatíma verða æfingar lengdar og hugsanlegar aukaæfingar boðaðar um helgar í samráði við nemendur og fyrirvara eins og hægt er.

Tími með meðleikara

Nemendur geta bókað sig til að renna lögum með meðleikara. Meðleikari er með undirleik á vissum tímum sem tilkynntir eru af meðleikara sjálfum. Tilgangur er undirbúningur undir tónleika og fyrir hóptíma. Nemendur eru hvattir til að nýta sér þessa tíma strax frá byrjun. Aukatímar með meðleikara eru oftast ekki fáanlegir fyrir tónleika heldur er ætlast til þess að nemendur vinni jafnt og skipulega að undirbúningi laga.

Vorsýning

Stærsta verkefni söngleikjadeildar eftir áramót er að setja upp nemendasöngleik með báðum deildum. Prófað verður í hlutverk samkvæmt fyrirmælum kennara þannig að nemendur geta fengið tækifæri til að sanna sig ef hugur stendur til ákveðinna sérstakra hlutverka í söngleiknum. Almenn regla er að nemendur í miðnámi hafa forgang í stærri hlutverk en kennarar geta þó gert undantekningu á því samkvæmt sínu samráði og eftir inntökupróf. Þættir sem spila inn í hlutverkaval eru prufan sjálf, reynsla nemanda í deildinni, vinnusemi og áreiðanleiki. ATHUGIÐ að ekki er víst að nemendur í grunndeild fái hlutverk í söngleikjaverkefninu; slíkt skal metið eftir framvindu og þörfum viðkomandi nemanda. Þó er leitast við að finna sem flestum eitthvað við hæfi.

Frumsýningarvika: Mikilvægt er að nemendur séu lausir og í fríi alla frumsýningarvikuna frá vinnu og skóla, ef með þarf.  Mælst er til þess að nemendur sleppi engum hóptíma eftir áramót nema í neyð og skipuleggi utanlandsferðir og önnur frí eftir frumsýningu.

Próf

Nemendur geta tekið stigspróf í söng og er uppbyggingin svipuð og í óperunámi. Nemandi þarf að teljast tilbúinn í viðkomandi próf raddlega og einnig þarf hann að hafa lokið bóklegri tónfræði. Nemandi þarf að ræða möguleika á prófi við einkakennara sinn með mjög góðum fyrirvara þar sem undirbúningur á efni fyrir prófið tekur tíma.

Boðið er upp á: Grunnpróf, miðpróf og diplómupróf í söngleikjum. Diplómupróf í söngleikjum er nýjung í anda burtfararprófs sem er hannað með það fyrir augum að undirbúa nemanda betur fyrir inntökupróf í listaháskólum (söngleikir, söngur/lagasmíðar, leiklist o.s.frv.) frekar en framhaldsnám í klassískum einsöng.

Um lagaval almennt

Nemendur eru hvattir til sjálfstæðra vinnubragða og til þess að hafa frumkvæði við að finna lög til að syngja. Kennarar leggja til einstök lög ef þeir telja þau henta nemendum eða hjálpa þeim við raddlegan þroska. Nemendur bera ábyrgð á að útvega sér nótur fyrir lög sem þeir velja sér og er mælt með síðum eins og musicnotes.com til þess. Skólinn hefur ákveðið safn af nótum á skrifstofu sem nemendur hafa aðgang að. Sömuleiðis hjálpast nemendur og kennarar að við að byggja upp safn af rafrænum nótur sem báðar deildir hafa aðgang að.

Námið er ekki fullt nám. Nemendur hafa bara einn einkatíma og einn hóptíma í viku fyrir áramót en svo mæta báðar deildir tvisvar í viku í hóptíma eftir áramót (þri/mið) þegar vinna við vorsýningu hefst. Nýtið tímann vel á milli. Lærið lögin ykkar, skilið nótum tímanlega inn til píanóleikara svo þeir hafi tíma til undirbúnings. Ef þið lærið lögin er hægt að leikstýra ykkur og hjálpa frekar í hóptímum; það er undir ykkur komið en nemendur sem syngja utanbókar hafa forgang í hóptímum. Spjallið við félaga ykkar í deildinni og gerið atriði saman; verið frjó og óhrædd. Eitt það skemmtilegasta við leiklistarstarf er hópvinnan, ekki síst samsöngur. Gangi ykkur vel og góða skemmtun.