06 sep Fimm masterklassar í Söngskóla Sigurðar Demetz í haust
Eins og fram hefur komið bjóðum við masterklassa fyrir nemendur okkar í allan vetur en við hefjum það starf af miklum krafti nú í haust.
Fyrsti gestur okkar í vetur verður bandaríski framleiðandinn og tónlistarmaðurinn Michael J. Moritz en hann mun halda masterklass fyrir söngleikjadeild næstkomandi mánudag 12. september kl. 17 í sal skólans. Viku síðar verður Kolbeinn Jón Ketilsson gestur okkar, 19. September og 31. október kemur Roberta Cunningaham til með halda masterklass. Í nóvember eigum við svo von á fyrrum nemanda okkar sem starfar við óperuhúsið í Linz í Austurríki, Sveini Dúa Hjörleifssyni en í lok þess mánaður mun Hrólfur Sæmundsson miðla nemendum skólans af reynslu sinni. Það eru því spennandi mánuðir framundan hjá nemendum og áhugavert fyrir fólk utan skólans að koma til okkar í heimsókn til að fylgjast með því sem fram fer.
Bandaríski framleiðandinn Michael J. Moritz hefur hlotið fjölda tilnefninga til Tony verðlaunanna og Oliver verðlaunanna í West End auk Grammy tilnefninga fyrir plötuframleiðslu. Hann er tónlistarstjóri, leiðbeinandi, útsetjari, píanóleikari og tónlistarflytjandi.
Gefnar hafa verið út ýmsar upptökur af tónlistarflutningi Michael bæði í pop-tónlistargeiranum og í tengslum við tónlistarleikhús. Meðal síðustu verkefna hans var framleiðsla lagsins „What the World Needs Now“, gefið út til góðgerðamála.
Nánar má fræðast um Michael á heimasíðu hans. http://www.michaelmoritz.com/
Bandaríska söngkonan Roberta Cunningham hóf feril sinn sem lýrískur sópran en fékkst síðar við dramatískari hlutverk. Eftir nám vestanhafs starfaði hún í Evrópu í 25 ár (m.a. í Vín en kenndi auk þess í Berlín Münster, og Stuttgart). Hún er vinsæll kennari og ferðast víða til að kennslustarfa og heldur reglubundið masterklassa víða í Evrópu og í Bandaríkjunum.
Fljótlega verður einnig ljóst hvaða spennandi leiðbeinendur munu heimsækja okkur á vorönninni.
No Comments