12 nóv Þakkir til vinafélags Söngskóla Sigurðar Demetz
Haustið 2015 hittist hópur fólks í þeim tilgangi að skoða hvernig styðja mætti við bakið á skólanum sem kenndur hefur verið við Sigurð Demetz, Söngskóla Sigurðar Demetz, á erfiðum tímum.
Hér var um fjölbreyttan hóp fólks að ræða, fyrrverandi nemendur skólans, kennurum hans en einnig var öflugur hópur af vinum og fyrrverandi nemendum Sigurðar Demetz þarna mættur. Ætlunin var að finna í einu félagi velvilja fólk til sönglistarinnar og gefa öllum þeim sem vilja minnast góðra starfa og vináttu Sigurðar Demetz. Úr varð að Vinafélag Söngskóla Sigurðar Demetz var stofnað og hefur það síðustu 3 ár staðið þétt að baki skólanum. Félagið hefur styrkt sýningar skólans en í síðasta mánuði fékk skólinn 300.000 kr. styrk til að borga fyrstu greiðslu af flygli sem fest hafa verið kaup á fyrir sal skólans. Flygillinn kemur úr dánarbúi Jórunnar Viðar og er hljóðfærið úr vinnustofu tónskáldsins og píanóleikarans.
Gjöfin er kærkomin enda fjármunir af skornum skammti fyrir skólann síðustu misseri. Því miður er fjármögnun kennslukostnaðar frá opinberum aðilum ekki alltaf sá sami og kostnaðurinn við kennsluna nemur en auk þess vanda hefur leiguverð hækkað fram úr hófi. Þannig hefur á síðustu misserum aftur verið saumað að söngkennslunni og því lítið svigrúm t.d. til hljóðfærakaupa.
Í gær, sunnudaginn 11. nóvember hélt vinafélagið enn eina tónleika til að ná til nýrra félaga og gefa þeim sem þegar eru meðlimir tækifæri til að fá að upplifa söngvara sem starfa við skólan, læra í honum eða eru fyrrverandi nemendur. Á tónleikunum sungu Ásta Marý Stefánsdóttir, Gunnar Björn Jónsson, Guðmundur Karl Eiríksson, Hanna Dóra Sturludóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Kristinn Sigmundsson. Meðleikari þeirra var píanóleikarinn Aladár Rácz og var kynnir tónleikanna Jóhann Sigurðarson sem var í nemendahópi Sigurðar Demetz. Þeim er öllum þakkað fyrir sitt góða framlag til félagsins.
Mæting á tónleikana var góð og mikil ánægja með dagskrá tónleikanna. Vinafélagið fær innilegar þakkir fyrir stuðninginn síðustu ár og sérstaklega er ástæða til að þakka stjórn vinafélagsins, Sævari Kristinssyni, Johönnu Þórhallsdóttur og Sólveigu Brynju Grétarsdóttur fyrir alla sína góðu vinnu og hlýjan hug til skólans.
Sorry, the comment form is closed at this time.