28 mar SSD SÝNIR ÓPERUNA SUSANNAH
Óperudeild Söngskóla Sigurðar Demetz sýnir um næstu helgi óperuna Susannah eftir bandaríska tónskáldið Carlisle Floyd.
Óperan er önnur mest flutta bandaríska ópera sögunnar en söguþráður hennar hverfist um unga saklausa stúlku sem er ranglega sökuð um að vera sindug. Stúlkan er beitt grimmilegu ofbeldi og útskúfuð af fólkinu í litla fjallaþorpinu New Hope Valley, eftir að hópur leiðtoga kirkjunnar gengur fram á hana þar sem hún baðar sig nakin í afskekktum fjallalæk nálægt heimili sínu.
15 nemendur úr skólanum taka þátt í sýningunni og er leikstjóri Bjarni Thor Kristinsson en Antonía Hevesi sér um tónlistarstjórn. Með henni leika Matthildur Anna Gísladóttir á piano, Francisco Javier Jáuregui Narváez á gítar og Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson á fiðlu. Stjórnandi óperudeildar er Gunnar Guðbjörnsson.
Þetta er í fyrsta sinn sem óperan Susannah er flutt á Íslandi og verða sýningarnar laugardaginn 1. apríl kl. 19.30 og sunnudaginn 2. apríl á sama tíma. Sýnt verður í Kópavogsleikhúsinu, Funalind 2 og er hægt að panta miða með því að senda póst á netfangið gunnar@songskoli.is.
Sorry, the comment form is closed at this time.