Skólasetning SSD þriðjudaginn 27. ágúst
20965
post-template-default,single,single-post,postid-20965,single-format-standard,bridge-core-3.1.1,qode-page-transition-enabled,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-child-theme-ver-1.0.0,qode-theme-ver-30.0.1,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-7.7.2,vc_responsive

Skólasetning SSD þriðjudaginn 27. ágúst

Skólasetning SSD þriðjudaginn 27. ágúst

Söngskóli Sigurðar Demetz verður settur þriðjudaginn 27. ágúst kl. 18 í Hljómbjörgu, sal skólans á 2. hæð Ármúla 44 (gengið inn frá Grensásvegi).

Kennsla hefst daginn eftir, miðvikudaginn 28. ágúst en það má með sanni segja að í ár sé skólinn á miklum tímamótum.

Samstarf við MS er nú hafið með fyrstu nemendum sem stunda nú nám í báðum skólum og stefna með því að stúdentsprófi í söng/leikhúsi þar sem umtalsvert magn eininga, eða um helmingur, verða nýttar til stúdentsprófs. Þetta eru að því leyti tímamót að til þessa hefur aðeins brot eininga söngnáms með leiklistaráherslu verið nýtanlegt til stúdentseininga og því stórkostlegt tækifæri fyrir þá nemendur sem vilja feta þessa braut að ræða. Þarna verður til leið til að búa sig undir háskólanám í annaðhvort sönglistinni eða leiklist og fá það um leið metið að verðleikum í tengslum við annað nám.

Við höfum í þessum tilgangi einnig gert aðrar breytingar og stofnað upp úr óperudeild 1 nýja deild, þar sem leiklistarkennslu verður gert hærra undir höfði. Deildina köllum við nú Söngleikja- og óperudeild 1. Það verður spennandi að fylgjast með þeirri vinnu í vetur sem hefst á leiklistarnámskeiði sem Þorsteinn Bachmann sér um en einnig verða hóptímar í ætt við þá sem þekkjast hjá söngleikjadeildinn sem starfað hefur hjá okkur í 10 ár.

Við munum einnig í vetur bjóða kerfisbundið upp á þjálfun í framburði mikilvægra söngtungumála og styðjumst i því efni við IPA kerfið. Við höfum fengið Bergþór Pálsson til að kenna en hann verður einnig söngkennari við skólann.

Að auki höfum við opnað fyrir óperudeild 2 þannig að nokkrir utanskólanemendur sem klárað hafa í það minnsta miðstig í söng fá tækifæri til þátttöku. Deildin mun þannig verða vísir að óperustúdíói sem leitt verður af Bjarna Thor Kristinssyni sem ekki er aðeins einn af þekktari söngvurum Íslands, heldur einnig einn af virkustu óperuleikstjórum á Íslandi um þessar mundir.

Ýmislegt spennandi er einnig framundan á vettvangi heilsueflandi söngnáms sem tilkynnt verður síðar en við njótum enn góðs af stuðningi menntamálaráðuneytis frá því í fyrra þegar okkur var veittur stuðningur til að þjálfa kennara skólans og veita þeim innsýn í aðferðir og viðbrögð við mismunandi kröfum þeirra sem á þurfa að halda. Einnig höfum við haldið sérstök námskeið fyrir nemendur sem glíma við frammistöðukvíða, með góðum árangri. Við vonumst eftir frekara samstarfi við ráðuneytið um þróun þessa starfs sem við teljum að verði lykilatriði í listkennslu framtíðarinnar með breyttum þörfum samfélagsins.

Við bjóðum í haust einnig hóp nýrra kennara velkomna til starfa. Þau eru: Agnar Már Magnússon, Ástríður Alda Sigurðardóttir, Bergþór Pálsson, Björk Níelsdottir ,  

Eyjólfur Eyjólfsson, Helga Bryndís Magnúsdóttir, Guðný Charlotta Harðardóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Pétur Ernir Svavarsson.

Við erum stolt af nýuppfærðri kennarasíðu heimasíðu skólans en öllum ætti að vera ljóst að mannauður góðra skóla felst í tvennu: nemendum og kennurum hans. Við bjóðum nemendur og kennara SSD velkomna til starfa skólaárið 2024-25.

No Comments

Sorry, the comment form is closed at this time.