10 maí Opinn dagur í SSD næsta laugardag
Næstkomandi laugardag, 14. maí, bjóðum við upp á þá nýbreytni að halda opinn dag í Söngskóla Sigurðar Demetz.
Kl. 11 býðst gestum að fylgjast með masterklass þar sem Kristján Jóhannsson leiðbeinir nemendum skólans og kl. 13 tekur Diddú við með masterklass.
Kl. 15 er ráðgerð opin æfing söngleikjadeildar og eftir kl. 16 svo opin æfing óperudeildar sem frumsýndi sýningu sína „Óperusagan í dulargervi“ síðasta sunnudag og verða senur úr henni æfð á opnum degi, til aðlögunar fyrir sýningu á skólaslitum í lok mánaðarins.
Opinn dagur er kjörið tækifæri fyrir þá sem áhuga hafa á söngnáminu að kynna sér skólann sem hefur náð frábærum árangri á síðustu árum enda kenna við hann margir af okkur þekktustu söngvurum. Sumir þeirra munu verða á staðnum til að kynna gestum starfsemina. Við vonumst til að hitta sem flesta á opnum degi SSD.
Allir eru velkomnir í Söngskóla Sigurðar Demetz, Ármúla 44, 3. hæð en skólinn er staðsettur á horni Ármúla og Grensásvegar (gengið inn Grensásvegs megin). Verslunin Rekkjan er á jarðhæð.
No Comments