Námið í Söngskóla Sigurðar Demetz fyllti mig vissu um hvað ég vildi gera – Eyrún Unnarsdóttir fór beint í MA nám eftir SSD
16912
post-template-default,single,single-post,postid-16912,single-format-standard,bridge-core-3.1.1,qode-page-transition-enabled,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-child-theme-ver-1.0.0,qode-theme-ver-30.0.1,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-7.6,vc_responsive

Námið í Söngskóla Sigurðar Demetz fyllti mig vissu um hvað ég vildi gera – Eyrún Unnarsdóttir fór beint í MA nám eftir SSD

Námið í Söngskóla Sigurðar Demetz fyllti mig vissu um hvað ég vildi gera – Eyrún Unnarsdóttir fór beint í MA nám eftir SSD

Eyrún Unnarsdóttir stundar nú masersnám í söng í Musik und Kunst Privatuniversität der Stadt Wien en hún stundaði nám í Söngskóla Sigurðar Demetz áður en hún hélt þangað fyrir tveimur árum.

Í raun hafði Eyrún stundað nám áður í Vín en hvað réði því að hún ákvað að halda til Vínar í upphafi?

„Ég var í söngnámi á Akureyri meðfram námi mínu í MA og var þá hjá Sigríði Aðalsteinsdóttur, Mezzósópran. Hún sjálf stundaði nám í Tónlistarháskóla Vínarborgar og hálfpartinn sendi mig þangað í inntökupróf. Ég var sjálf svo ung og óreynd að ég vissi lítið sem ekkert um þennan stóra bransa svo ég er henni mjög þakklát. Hún á stóran þátt í því að ég ákvað að leggja tónlistina fyrir mig. Ég endaði svo á því að flytja aftur til Vínar þegar ég ákvað að láta slag standa og fara í mastersnám því hér er dásamlegt að læra og vera.“

Eyrún komst í mastersnám sitt eftir námið í Söngskóla Sigurðar Demetz og segir reynslu sína af MUK – Musik und Kunst Privatuniversität der Stadt Wien vera góða þó hún viðurkenni að hún þekki ekki vel til BA námsins.

„Skólinn er að mínu mati mjög góður. Ég hef ekki reynslu af BA náminu hér en mastersnámið finnst mér mjög vel upp byggt. Hægt er að velja um þrjár leiðir: óperudeild, ljóðadeild og einsöngsdeild. Sérstaklega finnst mér þessi Einsöngsdeildar-leið sniðug því þá er maður mjög frjáls til að vinna þá hluti sem akkúrat henta þá stundina en er ekki settur inn í ákveðinn ramma hjá annað hvort ljóðadeildinni eða óperudeildinni.“

„Skólinn er vel staðsettur í fyrsta hverfi borgarinnar og er passlega stór þannig að samskipti eru mjög persónuleg og þægileg.“

Eitt af því sem heillar Eyrúnu mest við Vínarborg er hin mikla menningarhefð þar og innblásturinn sem hún getur þar sótt í óperu- og tónleikahúsin.

„Borgin er dásamlega þægileg að búa í, almenningssamgöngur algjörlega til fyrirmyndar og auðvelt að gefa sér allann þann tíma sem maður þarf til að rækta og æfa röddina.“

Eins og áður segir var þetta í annað skiptið sem Eyrún flytur búverlum til Vínar en í millitíðinni stundaði hún nám í Söngskóla Sigurðar Demetz. Það er forvitnilegt að vita hverju sá tími sem hún varði hér á landi í millitíðinni skilaði henni?

„Ég gafst upp á söngnum eftir erfiðan tíma í mínu lífi, en ég missti pabba minn úr krabbameini þegar ég var í miðju námi í Vínarborg. Ég gat ekki hugsað mér að vera lengur svona langt frá fjölskyldunni og heimalandinu og gaf söngferilinn upp á bátinn. Eftir nokkur ár af söngleysi fann ég hversu mikla þörf ég hafði fyrir sönginn og hversu mikið ég saknaði hans. Þá vorum við fjölskyldan nýflutt til Reykjavíkur og eftir að hafa rætt við nokkra söngvaravini ákvað ég að skrá mig í nám hjá Söngskóla Sigurðar Demetz. Það var einfaldlega dásamlegur tími. Ég var í söngtímum hjá Hönnu Dóru Sturludóttur sem hvatti mig svo mikið áfram að það var algjör forsenda fyrir því að ég fór út í það að sækja um mastersnám og láta slag standa í annað sinn. En námið var einfaldlega svo dásamlegt, mikið af námskeiðum sem ég græddi mikið á og frábært og metnaðarfullt starf sem fyllti mig þeirri vissu um hvað það var sem mig langaði til að verða þegar ég yrði “stór”.

Hver eru svo framtíðarplönin að náminu í Vín loknu?

„Nú mun ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að komast að í óperuhúsi og geta gert sönginn að mínu lifibrauði.“

No Comments

Sorry, the comment form is closed at this time.