17 jan Kristín Sveinsdóttir með masterklass í SSD
Kristín Sveinsdóttir verður gestur okkar 5. febrúar næstkomandi en þá mun hún halda masterklass fyrir nemendur skólans í Hljómbjörgu kl. 17.30.
Antonía Hevesi spilar á píanó á masterklass Kristínar sem hefst kl. 17.30 og stendur í tvo klukkutíma.
Kristín Sveinsdóttir hóf að syngja árið 1997 með Krúttakór Langholtskirkju. Síðan þá söng hún með öllum kórum kirkjunnar og kom þar oft á tíðum fram sem einsöngvari undir stjórn Jóns Stefánssonar. Kristín lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík haustið 2013 undir leiðsögn Hörpu Harðardóttur. 2013- 2014 sótti Kristín söngtíma til Sigríðar Ellu Magnúsdóttur.
Kristín söng bakraddir inn á Biophilia plötu Bjarkar Guðmundsdóttur og tók svo þátt í tveggja ára heims- og tónleikareisu sem fylgdi á eftir plötunni. Kristín tók einnig þátt í að stofna sönghópinn Lyrika og starfaði með honum þar til leiðin lá til Vínar. Haustið 2014 hóf Kristín Bacherlornám í klassískum söng við Tónlistarháskólann í Vínarborg hjá Prof. Margit Klaushofer.
Kristín tók sér rúmlega ársleyfi frá skólanum í Vín til að syngja við óperustúdíóið Accademia del Teatro alla Scala í Mílanó. Þar kom hún fram sem einsöngvari á ýmsum tónleikum og óperuuppfærslum á Scala, m.a. sem 2. dama í Töfraflautunni eftir Mozart undir stjórn Adam Fisher, á árlegum jólatónleikum La Scala undir stjórn Franz Welser Möst og í uppfærslu á Der Rosenkavalier eftir Strauss undir stjórn Zubin Mehta. Kristín sneri aftur til Vínarborgar eftir tímann í Mílanó til þess að ljúka námi sínu. Hún söng í ýmsum óperuuppfærslum skólans, þ.á.m. Dorabellu í Così fan tutte, Hänsel í Hans og Grétu og Cherubino í Brúðkaupi Fígarós.
Auk skólaverkefna kom Kristín reglulega fram sem einsöngvari í verkefnum víðsvegar um Austurríki. Hún sneri aftur til Ítalíu haustið 2019 og ferðaðist með La Scala óperunni til Shanghai þar sem uppfærsla Peter Steins af Töfraflautunni var flutt undir stjórn Diego Fasolis. Árið 2020 flutti Kristín aftur til Íslands og starfar um þessar mundir með Barbörukórnum í Hafnarfirði auk þess að koma reglulega fram sem einsöngvari.
Sorry, the comment form is closed at this time.