03 okt Gitta-Maria Sjöberg með masterklass í SSD
Þriðjudaginn 22. október verður sænska söngkonan Gitta-Maria Sjöberg gestur okkar. Hún mun halda masterclass í Hljómbjörgu kl. 17 – 20.
Gitta-Maria Sjöberg sópransöngkona hefur átt farsælan feril víða um heim. Hún syngur bæði lýrísk og dramatísk óperuhlutverk en hún hefur sungið hlutverk eins og Tosca, Madame Butterfly, Mimi, Desdemona, Amelia, Leonora, Arabella, Sieglinde, Brangaene, Rusalka, Katarina Ismailova, Kostelnicka og Emilia Marty.
Túlkun Gittu-Mariu á hlutverkum Emiliu Marty í Vec Makropulos og Kostelnicku í Jenufa eftir Janacek sem og hlutverki móðurinnar í heimsfrumflutningi óperunnar Silent Zone eftir Louise Alenius hafa hlotið sérstaklega mikið lof. Uppfærsla Vec Makropulos á Janacek festivalinu í Brno hlaut verðlaunin Besta óperusýning ársins í Tékklandi 2014.
Gitta-Maria hefur einnig komið fram á tónleikum um alla Evrópu, í Rússlandi og Japan og hún sýnir mismunandi tónlistarstílum, hvort sem það eru sönglög eftir Schubert, þjóðlög eða jazzballöður, sömu orku og alúð.
Gitta-Maria er listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Nordic Song Festival sem hún stofnaði sumarið 2014 út frá áhuga sínum á ljóðasöng og naut hátíðin mikillar velgengni strax frá upphafi. Á dagskrá hátíðarinnar eru masterklassar, tónleikar og listræn rannsóknarverkefni. Hátíðin hefur vaxið og blómstrað og verður haldin 9. – 17. ágúst 2019 í Trollhättan, Svíþjóð.
Gitta-Maria hefur hlotið fjölda verðlauna, m.a. Birgit Nilsson verðlaunin, en síðan 2013 hefur hún sinnt störfum sem stjórnarformaður Birgit Nilsson-félagsins í Svíþjóð.
Margrét II Danadrottning sæmdi hana stórkrossi Dannebrogs-orðunnar árið 2004.
Masterklassinn er öllum opinn eins og venjulega og pianóleikari með nemendunum verður Sólborg Valdimarsdóttir.
Sorry, the comment form is closed at this time.