Fjórir til framhaldsnáms í háskólum erlendis
17562
post-template-default,single,single-post,postid-17562,single-format-standard,bridge-core-3.1.1,qode-page-transition-enabled,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-child-theme-ver-1.0.0,qode-theme-ver-30.0.1,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-7.6,vc_responsive

Fjórir til framhaldsnáms í háskólum erlendis

Fjórir til framhaldsnáms í háskólum erlendis

Fjórir  nemendur úr Söngskóla Sigurðar Demetz  héldu utan til náms í haust. Við fengum þau til að segja aðeins frá reynslu sinni af náminu í skólanum okkar en einnig um það sem þau eiga í vændum í sínum nýju skólum.

Fær námið metið inn á annað ár í Bmus

Fyrst til svara er Karólína Lárusdóttir sem hélt til Írlands í september.

Ég var 4 ár í Söngskóla Sigurðar Demetz í söngtímum hjá Diddú, ásamt því að ég tók þátt í öðrum þverfaglegum greinum. Ég lærði ótrúlega margt af því að stunda nám hjá ykkur og sú reynsla mun nýtast vel hér í Dublin og á öllum sviðum lífsins.

Skólinn sem Karólína  er í heitir Dublin Institute of Technology (DIT).

Í janúar á næsta ári mun nafnið þó breytast þar sem skólinn er að sameinast við nokkra aðra tækniskóla. Það eru allnokkrar deildir í skólanum og ég er undir deild sem heitir Conservatory of Music and Drama. Þar er ég í Bachelor námi sem kallast BMus Hons. Námið tekur oftast 4 ár, en ég tek það á 3 árum, þar sem ég fékk metið inn á annað ár. Á 3. ári þarf að velja þá grein sem við viljum sérhæfa okkur í. Eftir 4. árið stendur til boða tveggja ára mastersnám og eftir það er hægt að fara í doktorsnám.
Ég hlakka til að öðlast meiri reynslu og skilning á tónlistinni. Þó ég viti að þetta mun vera strangt ferli að læra margt eiginlega alveg upp á nýtt, þá finnst mér það ákveðinn sigur að vera loksins komin í nám þar sem ég er að einbeita mér að því að læra það sem ég hef mjög gaman af.

Saknar strax Hönnu Dóru

Jara Hilmarsdóttir sem stundar nú nám í Köln í Þýskalandi en hún.

Skólinn minn heitir Hochschule für Musik und Tanz Köln eða HFMT Köln. Ég mun hefja þar fjögurra ára Bachelor nám í október. Skólinn er risastór og þar er mjög fjölbreytt tónlistarnám stundað, bæði jazz og klassík í söng og líka í allri hljóðfærakennslu.

Ég var bara eitt skólaár í Söngskóla Sigurðar Demetz og hjá Hönnu Dóru Sturludóttur. En þó ég hafi verið stutt þá var klárlega þetta ómetanlegt, lærði meira á þessu ári en mér hefði getað dottið í hug. Ég sakna Hönnu strax!

Jara segist vera þegar byrjuð í ströngu þýskunámi.

Háskólanámið fer að sjálfsögðu allt fram á þýsku. Ég hlakka til að nýta mér allt sem skólinn hefur upp á að bjóða og vegna gífurlegrar aðsóknar í skólann finnst mér strax ákveðinn sigur í að hafa fengið inngöngu eftir heila viku af inntökuprófum í júní. Ég hlakka líka til að verða reiprennandi í þýsku!

 

Nælir sér í meistaragráðu eftir 2 ár í Antwerpen

Anna Guðrún Jónsdóttir hóf nám í haust í Koninklijk Conservatoire Antwerpen, konunglega konservatoríi Antwerpen.

Hér eru ýmsar sviðslistir kenndar, auk fjölda hljóðfæra og tónsmíða. Skólinn er partur af stærra háskólakerfi sem er dreift um landið. Gert er ráð fyrir að námið mitt taki tvö ár og að það færi mér meistaragráðu að þeim loknum. Ég byrjaði í SSD haustið 2011 og hef alla tíð verið hjá Auði Gunnarsdóttur, hún á allan heiðurinn að öllu sem ég kann og get.

Að komast inn í háskóla erlendis er ákveðin viðurkenning fyrir mig og sérstaklega þegar öll mín vinna heima er tekin til greina inn á hærra námsstig. Hér eru hæfileikar manns metnir að verðleikum og maður fær að víkka sjóndeildarhringinn vel og vandlega með því að hitta nýja kennara og kynnast nýjum aðferðum og tækni sem allt getur aðstoðað mann í átt að sinni eigin rödd og styrkt hana. Með því að búa á meginlandinu hefur maður auk þess tækifæri til þess að heimsækja aðrar borgir og kynnast óperumenningunni þar.

Lengi verið draumur að læra á meginlandi Evrópu

Sigurður Vignir Jóhannsson stundar nám eins Anna Guðrún og fleiri nemendur okkar við listaháskólann í Antwerpen, Koninklijk Conservatoire.

Hér er ég í bachelor námi í söng, en  í skólanum eru allskonar tónlistarfólk, leikarar og dansarar. Námið tekur 3 ár og eftir það stendur til boða tveggja ára mastersnám. Ég var tvö ár í Söngskóla Sigurðar Demetz, í söngtímum hjá skólastjóranum sjálfum.

Fyrir mig er frábært að geta lært á meginlandi Evrópu, það hefur lengi verið draumur. Fjarlægðir eru styttri milli stórborga, en frá Íslandi og framboð af óperusýningum og viðburðum er mun víðtækara. Kosturinn við BA námið hér er að mikið er lagt upp úr grunnfærni í nótnalestri og tónheyrn. Önnur kerfi eru notuð sem gefa aukna víðsýni og tól til þess að vera fljótari að læra tónlist og vinna með hana.

 

No Comments

Sorry, the comment form is closed at this time.