22 nóv Álfheiður Erla Guðmundsdóttir í Hanns Eisler – Gæti hugsað sér að klára mastersnámið í Berlín
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir útskrifaðist úr Söngskóla Sigurðar Demetz vorið 2013 og hélt að náminu loknu til Berlínar í framhaldsnám. Hún fékk inngöngu í hinn virta háskóla Hochschule für Musik Hanns Eisler Berlin og hóf þar nám á sumarönn árið 2014.
Álfheiður hefur verið virk í fríum sínum frá háskólanum að leyfa okkur á Íslandi að heyra í sér og síðasta sumar söng hún á tónleikum útsetningar vinkonu sinnar Hania Raniszewska á endurreisnarlögum J. Dowlands fyrir strengjakvartett og sópran. Nýlega hittist hópur tónlistarmanna í upptökuveri og tók upp lögin og tók Álfheiður þátt í því verkefni.
Ótrúlegt að fá að vera í stúdíói þar sem t.d Martha Argerich hefur tekið upp diskana sína. En ég og Fjölnir (Ólafsson) fluttum þessi lög á tónleikum í vor í Dómkirkjunni ásamt íslenskum strengjakvartett.
Upptakan verður aðgengileg á netinu fljótlega en einnig er ætlunin að sviðsetja lögin með leikstjóra á næsta ári. En hvað réði því að Álfheiður valdi sér Berlin og Hanns Eisler til framhaldsnáms?
Ég hafði verið í sambandi við aðra Íslendinga sem voru í Hanns Eisler og þau mæltu öll með skólanum og borginni. Þess vegna fór ég til Berlínar sumarið eftir framhalds- og stúdentsprófið til þess að kanna aðstæður. Á þessum þremur mánuðum fór ég á þýskunámskeið og í söngtíma í Hanns Eisler og var mjög ánægð. Svo fór ég í inntökuprófið sem var í byrjun árs 2014.
Álfheiður segir Hochschule für Musik Hanns Eisler Berlin hafa verið stofnaðan um síðstu öld í Austur-Berlín.
Í skólanum er m.a. hægt að læra klassískan söng, á ýmis hljóðfæri, óperuleikstjórn, tónsmíðar og hljóðfærastjórn. Skólinn skiptist í tvær byggingar og við söngvararnir deilum byggingu með píanistunum, leikstjórunum og öðrum fögum á meðan að allir hinir hljóðfæraleikararnir eru í annarri byggingu.
Álfheiður segir að Bachelornámið taki hin hefðbundnu fögur ár og mastersnámið önnur tvö ár.
Í bachelornáminu eru tveir söng- og undirleikstímar í viku. Þess fyrir utan fáum við tíma í leiklist, ítölsku, framburði, píanó, samkvæmisdansi, sviðsframkomu, skylmingum!!, barokkdansi og öðrum hefðbundnum bóklegum fögum. Svo er mikið framboð af valfögum, t.d. í ljóðasöng, endurreisnartónlist og svo framvegis. Frá og með 5. önn bachelornámsins má maður syngja fyrir ýmsar óperuuppfærslur á vegum skólans. En það er lögð meiri áhersla á þáttöku í þess háttar verkefnum í mastersnáminu. Skólinn býður einnig upp á allskyns meistaranámskeið.
Undirbúninginn á Íslandi fyrir námið úti telur Álfheiður hafa verið góðann í Söngskóla Sigurðar Demetz en Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú var söngkennari hennar í skólanum og Hallveig Rúnarsdóttir í fyrri hluta söngnámsins.
Á Íslandi var ég með frábæra söngkennara sem kenndu mér heilbrigða söngtækni og í Söngskóla Sigurðar Demetz fékk ég að taka þátt í ýmsum óperuuppfærslum sem var mjög verðmæt reynsla. Í skólanum var lögð mikil áhersla á samsöng og meistaranámskeið og þar lærði maður einnig mikið af því að hlusta á samnemendur sína. Það var auðvitað mikið viðbrigði að breyta allt í einu um tungumál og fara einungis í tíma sem fóru fram á þýsku. En það var alveg magnað að geta loksins virkilega skilið það sem maður var að syngja um. Ég vildi að ég hefði fyrr í söngnáminu á Íslandi lagt meiri áherslu á textann og framburðinn. Því það getur enginn gert það fyrir mann. Það var kannski of mikill vani hjá manni að syngja bara lagið/aríuna og ná valdi á laglínunni áður en maður fór að hugsa um textann. Þess vegna borgar það sig algjörlega að fylgjast með í tungumálatímum í framhaldsskóla því þar getur maður fengið frábæran grunn. Þegar ég flutti til Berlínar þá fann ég líka hvernig ég hafði ekki fullkomlega notað allan líkamann við sönginn. Við berum okkar hljóðfæri með okkur alla daga og því þurfum við rækta líkamann og nota það sem í honum býr til þess að styðja röddina öllum stundum. En Söngskóli Sigurðar Demetz er svo sannarlega yndislegur og heimilislegur skóli sem undirbýr nemendur sína mjög vel fyrir framhaldsnám í söng.
Fljótlega segist Álfheiður þurfa að taka ákvörðun um framhaldið enda nálgast BA útskriftin óðfluga.
Ég þarf fljótlega að taka ákvörðun hvort að ég vilji fara beint í mastersnám eða byrja að syngja fyrir. Mér líður mjög vel í Berlín og gæti vel hugsað mér að klára mastersnámið hér. En samkeppnin er mikil og það er hart barist um hvert pláss í bæði skólunum og óperuhúsunum. Hver veit? Ég hlakka að minnsta kosti mikið til!
No Comments