20 okt Oddur Arnþór Jónsson með masterklass næsta mánudag
Oddur Arnþór Jónsson verður gestur okkar á mánudag 23. október kl. 17.30 en þá heldur hann masterklass fyrir nemendur Söngskóla Sigurðar Demetz..
Oddur er einn af okkar þekktustu barítónsöngvurum en hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2018 sem söngvari ársins fyrir hlutverk Michaels í Brothers, óperu Daníels Bjarnasonar á Listahátíð 2018. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2014 fyrir hlutverk sitt í Don Carlo.
Oddur lærði hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Alexander Ashworth í Söngskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng við Mozarteum háskólann í Salzburg, Austurríki hjá Andreas Macco og Mörthu Sharp.
Við Íslensku óperuna hefur hann sungið fjölda hlutverka, m.a. Don Giovanni og Figaro í Rakaranum frá Sevilla. Sem ljóðasöngvari hefur Oddur flutt Das Lied von der Erde eftir Gustav Mahler í Garnier-óperunni í París, Vetrarferðina og Schwanengesang á Schubert-hátíðinni í Vilabertran á Spáni.
Oddur hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum ljóðakeppnum. Hann fékk Schubert-verðlaunin og verðlaun sem besti ljóða- og óratóríu flytjandinn í Francesc Viñas keppninnni í Barcelona. Hann sigraði Brahms-keppnina í Pörtschach í Austurríki og varð þriðji í Schuberg-keppninni í Dortmund í Þýskalandi.
Masterklassinn hefst kl. 17.30 og stendur til 19.30. Meðleikari verður Antónía Hevesi og er hann opinn eins og alltaf. Einnig verður streymt frá masterklassinum á Facebooksíðu skólans.
Sorry, the comment form is closed at this time.