04 júl Svipuð stemming meðal nemenda í Antwerpen og í SSD
Anna Guðrún Jónsdóttir er einn þeirra nemenda Söngskóla Sigurðar Demetz sem haldið hefur til náms í söngdeild Konunglega listaháskólans í Antwerpen í Belgíu. Samband skólanna hefur myndað brú nemenda úr SSD yfir í háskólanám erlendis en stór hópur nemenda hefur haldið þangað til framhaldsnáms. Nokkrir þeirra hafa þegar lokið námi sínu en Anna Guðrún fékk mikið af náminu hér heima metið og gat því strax hafið meistaranáms sitt við háskólann en hún lauk MA gráðu í september í fyrra og Post Graduate í haust.
“Nokkrum mánuðum áður en ég lauk burfararprófinu mínu, 2018, hitti ég Gary Jankowski, einn af söngkennurum skólans úti. Hann kom til Íslands og hélt masterclass og við höfðum einnig tækifæri ti að fara í einkatíma hjá honum. Þannig gat hann kynnst nýjum röddum og ráðlagt okkur varðandi það að sækja um nám í skólanum. Ég tók þátt í masterclassinum og fór í tíma til hans og sá strax að það sem hann var að gera hentaði vel fyrir næstu skref hjá mér. Ég sótti svo um í kjölfarið og hóf nám þar um haustið. “
Anna Guðrún stundaði námið í SSD á sínum tíma samhliða vinnu og segir það hafa munað miklu að geta einbeitt mér enn betur að söngnáminu eftir að hún hélt til Antwerpen.
“Það munaði mikið um það, enda mikið að gera hjá mér, sérstaklega á fyrsta árinu. Námið í Antwerpen er enn á mjög akademískum nótum og því mikil áhersla á ritgerðir og annað og það var að einhverju leyti tekið framyfir þjálfun í framkomu og túlkun. Þetta voru töluverð viðbrigði, enda vorum við í SSD vön áherslunni á sönginn, túlkunina og framkomuna.”
Að sögn Önnu Guðrúnar er háskólinn í Antwerpen ekki mjög stór og söngdeildin raunar mjög lítil.
“Það er því oft mjög svipuð stemming á meðal nemenda og er í SSD. Í Antwerpen höfum við aðgang að tónlistarfólki sem er mjög framarlega í sínu fagi og þau búa yfir mikilli visku um óperuheiminn í heild, söngtækni og túlkun. Að fá tækifæri til að vinna með þessu fólki er ómetanlegt og svo mikilvægt fyrir okkur að fá þessa miklu innsýn í óperuheiminn. Svo er nýbúið að bæta við þjálfun í að vinna saman með píanóleikara. Áfanginn kallast Collaboration á vondri íslensku og þetta er gríðarlega mikilvægur hlekkur í allri okkar vinnu og framkomu. Píanóleikararnir eru í master í píanómeðleik og læra þar að hlusta á okkur og fylgja okkur og við sömuleiðis að fylgja þeim og hafa viss samskipti við þau á sviðinu og á æfingum.”
Helsta ókostinn við námið í Antwerpen telur Anna Guðún þó vera að enn sé það talsvert miðað að bóklegu námi.
“Það fer mikið fyrir bóklegum fögum, prófum þeim tengdum og ritgerðarskrifum – allt á kostnað okkar aðalfags. Það er þó unnið í breytingum á þessu hugarfari og nú þegar búið að bæta í tónlistarhlutann með nýjum söngáföngum og masterklössum og við fáum mun fleiri tækifæri til að koma fram en áður.”
Þá nefnir hún að almennt skipulag og samskipti gætu einnig verið töluvert betri.
“Þau eiga það stundum til að gleyma að erlendir nemendur eru í miklum meirihluta – til dæmis eru skilaboðin til okkar frá aðalskólanum sem listaháskólinn er hluti af stundum eingöngu á flæmsku.”
“Að flytja í annað land og aðra borg getur svo reynt á og ég fékk heldur betur að kynnast því í upphafi, mikið skrifræði varðandi húsnæði og skráningu í landið, en allt hófst að lokum. Skólinn aðstoðar líka við eitthvað af þessu og getur reynt að kippa í spotta ef þörf krefur.”
Í mars síðastliðnum fór Anna Guðrún með hluverk Donnu Elviru í uppfærslu skólans á Don Giovanni eftir Mozart.
„Uppfærslan var töluvert frábrugðin öðrum uppfærslun, þar sem það þurfti að laga alla okkar vinnu að þágildandi sóttvarnarreglum. Þetta var mikilvæg reynsla í reynslubankann og gaman að bæta nýju hlutverki við sívaxandi listann. Á hverju ári eru einnig settar saman óperusenur í einhverju formi, sem við fáum að taka þátt í. Síðasta haust var svo ljóðaflokkurinn Frauenliebe und Leben eftir Schumann sviðsettur, þar sem ég fór einnig með nokkuð stórt hlutverk.”
Anna Guðrún stefnir að því halda áfram vinnu sinni með kennara sínum og undirbúa efni fyrir áheyrnarprufur og bæta sömuleiðis í hlutverkabanka sinn.
“Síðustu misseri hafa verið nokkuð erfið hvað áheyrnarprufur og tónleikahald varðar og því gott að nota tækifærið núna þegar allt er að fara af stað aftur og vera tilbúin með efni til að senda frá mér, koma mér á framfæri og næla mér í hlutverk .”
Sorry, the comment form is closed at this time.