11 maí SSD sýnir óperuna Gretti eftir Þorkel Sigurbjörnsson – Frumsýning á Íslandi
Óperudeild Söngskóla Sigurðar Demetz bregður út af vana sínum þetta árið og setur upp óperu sem samin er á 21. öldinni, Gretti eftir Þorkel Sigurbjörnsson.
Um árabil hefur verkefnaval skólans beinst að klassískum óperu- eða óperettuverkefnum en í ár veljum við íslenskt og er sýning óperudeildarinnar í raun íslensk frumsýning á þessari kammeróperu.
Leikstjóri Grettis er Þorsteinn Bachmann. Antonía Hevesi sem er tónlistarstjóri sýningarinnar leikur á hljómborð í sýningunni og Guðrún Dalía Salómónsdóttir sér um píanóleik.
Óperan er upprunalega skrifuð á ensku upp úr texta Böðvars Guðmundssonar sem samdi upprunalegan íslenskan texta. Leikstjóri sýningarinnar og tónlistarstjóri hafa í samvinnu aðlagað þann texta að tónlistinni og kappkostað að vera upprunalegum texta Böðvars trú í þeirri vinnu. Óperan var áður sýnd á árinu 2004 í Bayreuth í Þýskalandi og síðar í Kanada, hvort tveggja í leikstjórn Sveins Einarssonar og undir tónlistarstjórn Dr. Guðmundar Emilssonar.
Óperan Grettir segir söguna af Drómundi, bróður hetjunnar Grettis, sem hefur verið fangelsaður suður í Miklagarði en þar leitaði hann hefnda fyrir víg bróður síns. Óperan fjallar á gamansaman hátt um það hvernig Drómundur nær að sleppa úr prísundinni og hver örlög hans verða í kjölfar þess.
Tvær sýningar verða á kammeróperunni Gretti: þriðjudagskvöldið 24.maí og miðvikudagskvöldið 25. maí, báðar sýningar kl. 19.30 í Hljómbjörgu, sal Söngskóla Sigurðar Demetz á 2. hæð Ármúla 44. Miða er hægt að panta með því að senda póst á gunnar@songskoli.is og er miðaverð 3.000 (nemenda- öryrkja- og eldri borgaraafsláttur 1.500).
Sorry, the comment form is closed at this time.