21 maí Skólaslit – The Road Goes Ever On flutt í lok skólaársins
Það er komið að lokum skólastarfsins í vetur og verður skólanum slitið föstudaginn 27. maí kl. 18 í Hljómbjörgu, sal okkar í Ármúla 44, 2. hæð.
Við vonumst til að sjá ykkur sem flest enda þurfa nú nemendur að nálgast umsagnir sínar og einkunnablöð. Við höfum oft tengt skólaslit tónlistarflutningi og verður einnig sá háttur hafður á í ár .
Í vor áttum við í Söngskóla Sigurðar Demetz í samstarfi við Bókasafn Hafnarfjarðar en verkefnið var að flytja ljóðasveiginn The Road Goes Ever On, verk Donald Swann eftir ljóðum J.R.R. Tolkien. Verkefnið er styrkt af Hafnarfjarðarbæ og unnið í tilefni af 100 ára afmæli Bókasafns Hafnarfjarðar og 120 ára afmæli J.R.R Tolkien.
Eftir fádæma vel heppnaða tónleika í Bókasafni Hafnarfjarðar í apríl fannst okkur í SSD tilvalið að gefa söngvurunum okkar út söngleikjadeild SSD tækifæri til að endurtaka flutning sinn og uðru skólaslitin fyrir valinu.
Hringadróttinssaga Tolkien er án alls efa eitt áhrifamesta bókmenntaverk síðustu aldar. Það hefur verið fært í mörg form, bæði teikni- og kvikmyndir, og svo eins í tónlistarform. Velska tónskáldið Donald Swann, samtímamaður og félagi Tolkien, samdi sjö laga verkið ‘The Road Goes Ever On’ – eða Vegaljóðin – fyrir einsöngvara og kór árið 1967, og er þetta frumflutningur á Íslandi. Swann samdi tónlistina með aðkomu Tolkien’s sjálfs, sem las textana sjálfur upp á fyrstu hljóðritun verksins.
Ljóðin eru sungin ýmist á ensku eða Quenya (álfamáli). Allir textarnir eru úr Hringadróttinssögu, að undanskildu lokaljóði úr sagnasafninu Ævintýri Tom Bombadils.
Tónlistarstjóri verkefnisins er Pétur Ernir Svavarsson, en hann leikur einnig á píanó, og flytjendur eru Erla Ruth Möller, Halldór Ívar Stefánsson, Hrefna Hlynsdóttir, Máni Emeric Primel, Natalía Sif Stefánsdóttir og Snjólaug Vera Jóhannsdóttir. Raddþjálfi er Þór Breiðfjörð.
Sorry, the comment form is closed at this time.