Í vetur verður Óperudeild Söngskóla Sigurðar Demetz opnuð upp á gátt og söngvurum og söngnemendum á öllum aldri utan skólans boðið að taka þátt í starfsemi hennar samhliða þeim nemendum sem stunda nám við deildina.
Deildin er starfrækt á miðvikudögum kl 17-20 í sal skólans og í lok vetrar verður blásið til óperusýningar sem sniðin verður að þeim nemendum sem stunda nám við deildina. Auk þess fer fram í tímunum almenn kennsla í leiklist, sviðsframkomu og ýmsu öðru sem tengist óperusöng. Gert er ráð fyrir u.þ.b. 15 tímum (3 klst) fyrir jól og 15 eftir jól auk lokaæfinga fyrir sýninguna n.k. vor. Kennarar við deildina eru Bjarni Thor Kristinsson leikstjóri og Guðrún Charlotta Harðardóttir píanóleikari. Verð fyrir allan veturinn er 200.000 kr. Einnig býðst þátttakendum að kaupa 5 söngtíma (45 mín) hjá völdum kennurum skólans á aðeins 40.000 kr til viðbótar við upphafsgreiðsluna.
Óperusýningar SSD síðustu ár hafa verið sýndar í Kópavogsleikhúsinu og er ráðgert að sami háttur verði á í vetur.
Nánari upplýsingar veitir Gunnar Guðbjörnsson í síma 6634239 en einnig er hægt að senda honum fyrirspurnir á netfangið gunnar@songskoli.is þar sem einnig er tekið á móti umsóknum.