23 jún Næst er að syngja fyrir og meika það
Síðustu ár hefur þróast gjöfult og gott samband milli Söngskóla Sigurðar Demetz og söngleildar Konunglega listaháskólans í Antwerpen í Belgíu. Samband skólanna hefur myndað brú nemenda úr SSD yfir í háskólanám erlendis en stór hópur nemenda hefur haldið þangað til framhaldsnáms. Nokkrir þeirra hafa þegar lokið þar námi síðu eða eru við það að útskrifast, bæði með BA og Masters gráður.
Jóhann McClure Óðinsson Waage er einn þessara nemenda en við fengum hann aðeins til að segja frá því hvernig það kom til að hann hélt til Belgíu og hvað hefur drifið á daga hans frá því námið hófst.
“Gary Jankowski kom til okkar í SSD og var með masterclass. Ég bæði og söng fyrir hann þá og fékk tvo einkatíma með honum. Ég í rauninni elti hann til Belgíu. Það hjálpaði líka til að Gummi félagi (Guðmundur Davíðsson sem einnig stundaði námí SSD) var búinn að vera þar í eitt ár og gat frætt man um hvernig allt virkar í Antwerpen.“
Gary Jankowski er einn af prófessorum skólans en hann hefur síðustu ár haldið masterklassa í Söngskóla Sigurðar Demetz og vakið athygli fyrir vandaða söngkennslu sína.
“Í Belgíu lærir fólk að lesa nótur í grunnskóla og Belgískir söngvarar stæra sig af því að vera góðir í að lesa beint af blaði. Við frá Íslandi komum aftur á móti með lengra komna söngtækni og meiri reynslu í að taka þátt í uppfærslum og tónleikum.” segir Jóhann þegar hann er spurður um það hvernig hafi gengið að flytja sig á milli skólanna og venjast háskólanáminu.
“Antwerpen er falleg borg og hér er mikil menning. Námið er akademískt og sumir áfangar mjög krefjandi. Skipulagið er ekki alltaf upp á marga fiska en söngkennararnir eru góðir og vilja allt fyrir nemendur sína gera.“
Auk hinnar ríku menningarhefðar segir Jóhann að í borginni sé eitt og annað að finna sem margir kynnu að slæðast eftir.
„ Þar má nefna bjórinn, franskarnar, súkkulaðið og vöfflurnar sem eru kannski bæði kostir og gallar!“
Flestum er ljóst að fagleg reynsla skiptir miklu fyrir nemendur sem ætla sér að stíga á óperusviðið að námi loknu og þar skapast sannarlega tækifæri fyrir nemendur sem halda til Antwerpen.
„Fyrir utan Covid árið mikla 2020 þá höfum við verið með eimhverskonar óperu uppfærslu hvert ár. Bæði sem skólinn skipuleggur og svo þurfa allir mastersnemendur að setja upp eimhverskonar symingu á seinasta árinu í skólanum. Ég hef fengið að taka þátt í fleiri uppfærslum en ég get talið upp í fljótu bragði. Þær sýningar sem skólinn sjálfur stóð fyrir voru: Die Spiegel uit Venitie, die Zauberflöte, Albert Herring og Don Giovanni .
Jóhann er bjartsýnn á framtíðina enda sér fyrir endann á erfiðu tímabili heimsfaraldurs í Belgíu eins og annarsstaðar í Evrópu.
„Vonandi verður nóg af tækifærum eftir að við losnum við þessa blessuðu veiru. Ég ætla að syngja fyrir, fá vinnu og bara meika það.“
Sorry, the comment form is closed at this time.