Ingunn Ósk Sturludóttir er fædd og uppalin í Reykjavík og hóf ung píanónám við Barnamúsíkskólann í Reykjavík. Síðar stundaði hún nám við Söngskólann í Reykjavík og lauk þaðan 8. stigsprófi 1987. Um tveggja ára skeið stundaði Ingunn framhaldsnám í London hjá Valerie Heath-Davies og Sigríði Ellu Magnúsdóttur. Haustið 1989 hóf hún nám við Sweelinck Tónlistarháskólann í Amsterdam og lauk þaðan prófi frá óperu- og ljóðadeild skólans 1992. Kennarar hennar þar voru Cora Canne-Mejer og Margret Honig. Ingunn hefur lokið kennaraprófi í starfrænum söngfræðum frá Lichtenberger Institut í Þýskalandi.
Ingunn hefur haldið fjölda einsöngstónleika hér heima, í Evrópu og Norður-Ameríku, tekið þátt í flutningi á m.a. Messíasi eftir Händel og Sálumessu Mozarts, komið fram með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur sungið við ýmis tilefni, í sjónvarpi með fjölda kóra auk þess að stjórna Sunnukórnum á Ísafirði í sjö ár
Ingunn hefur lengi starfað sem söngkennari og raddþjálfari. Hún kenndi við Tónlistarskóla Akraness og Söngskólann Domus Vox 1993-1995
Árið 1995 fluttist Ingunn vestur á firði og bjó og starfaði ásamt eiginmanni sínum í eyjunni Vigur í Ísafjarðardjúpi við ferðaþjónustu og hefðbundin bústörf auk þess að kenna söng við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Árið 2013-2020 starfaði hún sem skólastjóri við TÍ og sinnti jafnframt söngkennslu.