Laufey Sigrún Haraldsdóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með B.Mus gráðu í píanóleik og lauk meistaranámi í klassískum píanóleik frá Tónlistarháskólanum í Árósum. Hún hefur sótt ýmis tónlistarnámskeið, meðal annars IMPACT hjá New York University – samstarf milli listgreina í performans og Training of Trainers hjá Musicians without Borders. Sem tónlistarflytjandi hefur Laufey komið víða við. Hún hefur flutt klassíska tónlist víða, en þar að auki hefur hún tekið þátt í hljóðspuna verkefnum með ýmsu tónlistarfólki.
Hún hefur einnig staðið fyrir tónleikum bæði hérlendis og erlendis í samstarfi við aðra listamenn með eigin tónlist og útsetningum meðal annars. Þar að auki hefur hún komið fram með ýmsum tónlistarhópum sem píanóleikari og söngkona. Hún setti af stað verkefni á Landsspítalanum í formi tónlistarflutnings í þeim tilgangi að veita slökun og upplyftingu.
Laufey hefur á undanförnum árum starfað ýmist sem meðleikari og kennari í Listaháskóla Íslands, Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Söngskóla Sigurðar Demetz. Þar að auki hefur hún haldið tónlistarvinnusmiðjur hérlendis og í Danmörku í hóp-og hrynsköpun og fór nýverið sem aðstoðarleiðbeinandi með Musicians without Borders til Rwanda til að vinna með tónlistarfólki og kennurum þar.