Aðeins 3 flokkar af 10 gáfu svör
18096
post-template-default,single,single-post,postid-18096,single-format-standard,bridge-core-3.1.1,qode-page-transition-enabled,ajax_fade,page_not_loaded,,qode-child-theme-ver-1.0.0,qode-theme-ver-30.0.1,qode-theme-bridge,qode_header_in_grid,wpb-js-composer js-comp-ver-7.6,vc_responsive

Aðeins 3 flokkar af 10 gáfu svör

Aðeins 3 flokkar af 10 gáfu svör

Þriðjudaginn 21. september sendi skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz öllum forystumönnum stjórnmálaflokkanna spurningar um stefnu þeirra er snýr að fjármögnun tónlistarnáms á efri stigum, með sérstkri áherslu á söngnámið.
 
Ástæða fyrir spurningunum er ekki síst sú að söngnemendum hefur fækkað um vel á annað hundrað í Reykjavík síðan samkomulag um eflingu tónlistarnám var fyrst komið á en þar leggur ríkið til fjármagn til móts við kennslukostnað. Þar sem Reykjavík leggur ekki lengur til neina fjármuni til tónlistarnáms á þessum stigum og samkomulagsupphæðin nær oft ekki að fjármagna kennslukostnað á efri stigum með viðunandi hætti hefur vandi skapast hjá ákveðnum skólum í Reykjavík. Samkomulagið nær yfir fjármögnun um 2/3 söngnáms meðan lauslega má áætla að það nái einungis yfir um fjórðung hljóðfæranáms er einsýnt að fækkun hefur orðið í söngnámi.
 
Afleiðingarnar eru færri pláss fyrir söngnemendur og fækkun starfa í söngkennslu fyrir þá starfandi söngvara sem sinna því sem hlutastarfi.
 
Skólastjóra SSD lék forvitni á að vita hver afstaða stjórnmálaaflanna væri til málsins og sendi því öllum flokkum spurningarnar. Aðeins þrír flokkar svöruðu af þeim tíu sem fengu spurningarnar sendar.
 
Vitanlega eru það vonbrigði að málefni okkar skipti fólk í stjórnmálum svo litlu máli en við getum þó í það minnsta skoðað svör þeirra þriggja sem svöruðu.

 

 

Svör við spurningum Gunnars Guðbjörnsson, skólastjóra Söngskóla Sigurðar Demertz

 

Svör Miðflokksins bárust frá Jóni Péturssyni:

  1. Tónlistarnám í Reykjavík er að mestu bundið við einkaskóla sem starfa við þann kost fyrir hluta starfsemi sinnar að búa við of lága fjármögnun til að mæta launakostnaði. Því miður virðist það vandamál oft vilja loða við listnám. Er það stefna ykkar að bæta úr slíkri vanfjármögnun til skóla sem veita listmenntun sem einkaskólar?

Svar: Miðflokkurinn hefur alltaf verið þeirra skoðunar að einkarekstur eigi jafn mikill rétt á sér og opinber rekstur. Það samkomulag sem verið hefur um að ríkið fjármagni kennslukostnað kennara á að sjálfsögðu að virða. Gildir engu hvort skólar séu einkaskólar eða opinberlega svo fremi sem sömu viðmið um gæði náms gildi.

  1. Áætlið þið, ef þið takið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi, að leiðrétta 16 mánaða vangoldinn kostnað að lífskjarasamningum tónlistarskóla til tónlistarskóla vegna kennslu á efri stigum? (Slík vanfjármögnun hefur skilið eftir 11 milljóna bil hjá Söngskóla Sigurðar Demetz en hlutfall þessa skóla er um 15% af heildarfjármagninu til samkomulags um eflingu tónlistarnáms.)

Svar:  Samningar sem gerðir hafa verið ber ætíð að standa við. Upphæðir sem um ræðir eru greinilega ekki háar en geta skipt skólana miklu máli.

  1. Verður nýtt samkomulag með leiðréttingum á framlögum í samræmi við launahækkanir lífskjarasamninga gert fyrir áramótin 2021-22 ef þið verðið með mennta- og menningarmálaráðuneytið í nýrri ríkisstjórn?

Svar: Þessu er erfitt að svara á þessu stigi en skoða þyrfti málið frá öllum hliðum áður en þessari spurningu er hægt að svara. Sé niðurstaðan sú að um mismunun hafi verið að ræða mun Miðflokkurinn beita sér fyrir því að slíkt verði leiðrétt.

 

  1. Getur þinn flokkur hugsað sér að beita sér fyrir því að gert verði sérstakt samkomulag um söngnámið sem lýtur allt öðrum lögmálum en annað tónlistarnám og að það samkomulag feli í sér að stórfelld fækkun söngnemenda í Reykjavík verði leiðrétt með fjölgun næstu ár?

Svar: Fækkun nemenda í söngnámi er áhyggjuefni en starfsöngvara eru oft vanmetið og má nefna að æ oftar er ekki lifandi söngur við útfarir heldur spilað af diskum. Almenn skoðun Miflokksins er að fólk eigi að mennta sig til þess sem hugur viðkomandi stefnir og ber að styðja alla menntun jafnt.

 

Svör Vinstri Grænna bárust frá Huldu Hólmkelsdóttur:

  1. Tónlistarnám í Reykjavík er að mestu bundið við einkaskóla sem starfa við þann kost fyrir hluta starfsemi sinnar að búa við of lága fjármögnun til að mæta launakostnaði. Því miður virðist það vandamál oft vilja loða við listnám. Er það stefna ykkar að bæta úr slíkri vanfjármögnun til skóla sem veita listmenntun sem einkaskólar?

 

Svar: Vinstri græn telja mjög mikilvægt að efla tónlistarnám á öllum stigum. Samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla eru þeir reknir með samningum við sveitarfélögin. Ríkið veitir svo framlög til náms á framhaldstigi samkvæmt samkomulagi þar um. Mikilvægt er að vinna að því að efla tónlistarkennslu, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Vinstri græn leggja áherslu á að endurskoða þurfi lagaumherfi listmenntunar í heild sinni hér á landi og vinna áfram að því að tryggja samstarf ríkis og sveitarfélaga um framtíð tónlistarmenntunar hér á landi. Vinstri græn leggja áherslu á að lyfta upp málaflokkum menningar og lista innan stjórnsýslunnar.

 

  1. Áætlið þið, ef þið takið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi, að leiðrétta 16 mánaða vangoldinn kostnað að lífskjarasamningum tónlistarskóla til tónlistarskóla vegna kennslu á efri stigum? (Slík vanfjármögnun hefur skilið eftir 11 milljóna bil hjá Söngskóla Sigurðar Demetz en hlutfall þessa skóla er um 15% af heildarfjármagninu til samkomulags um eflingu tónlistarnáms.)

 

Svar við spurningu 2 og 3: Mikilvægt er að stjórnvöld standi við samkomulag um fjármögnun framhaldsnáms í tónlistarkennslu. Ef vankantar eru á samkomulaginu eða framkvæmt þess þarf að endurskoða það þegar unnið verður að heildarendurksoðun listkennslu sem brýnt er að ráðast í.

  1. Verður nýtt samkomulag með leiðréttingum á framlögum í samræmi við launahækkanir lífskjarasamninga gert fyrir áramótin 2021-22 ef þið verðið með mennta- og menningarmálaráðuneytið í nýrri ríkisstjórn?
  2. Getur þinn flokkur hugsað sér að beita sér fyrir því að gert verði sérstakt samkomulag um söngnámið sem lýtur allt öðrum lögmálum en annað tónlistarnám og að það samkomulag feli í sér að stórfelld fækkun söngnemenda í Reykjavík verði leiðrétt með fjölgun næstu ár?

Svar: Vinstri græn hafa það á stefnu sinni að fram fari heildarendurskoðun á lagaumhverfi listkennslu hér á landi. Við þá vinnu þarf að kalla að borðinu alla viðeigandi hagsmunaaðila og byggja á þeirri reynslu sem samkomulagið hefur veitt okkur, til þess að gera betur til framtíðar. Mikilvægt er að tryggja farsælt samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviði tónlistarkennslu til framtíðar hér á landi. Sjá nánari stefnu VG í menningarmálum hér; https://vg.is/stefna/menning-og-listir

 

 

Svör Pírata bárust frá Stefáni Óla Jónssyni:

Hér hafiði svar flokksins:

Píratar leggja mikið upp úr heiðarleika í sínum störfum, eins og slagorð flokksins fyrir þessar kosningar ber með sér: „Lýðræði – ekkert kjaftæði.“ Heiðarlega svarið við spurningum ykkar er því að grasrót Pírata hefur ekki samþykkt stefnu fyrir flokkinn sem getur svarað ykkur af þeirri nákvæmi sem spurningarnar ykkar krefjast.

 

Hins vegar vilja Píratar undirstrika eitt. Efling skapandi greina og listnáms er gríðarlega veigamikill þáttur í stefnu flokksins fyrir komandi kosningar. Í stefnum Pírata í nýsköpunar- og menntamálum leggjum við mikla áherslu á stuðning við nýsköpun í víðum skilningi og nefnum sérstaklega mikilvægi þess að efla nýsköpun í skapandi greinum. Mikilvægi þeirra mun aðeins koma til með að aukast á næstu áratugum, með fjórðu iðnbyltingunni og aukinni sjálfvirknivæðingu, og menntakerfið þarf að vera undir það búið.

Efnahagsleg áhrif skapandi lista er óumdeilt og í því samhengi má nefna að líta Píratar einfaldlega á listamannalaun sem nýsköpunarstyrki, en ekki ölmusu til listafólks. Það verður því kappsmál Pírata, nú sem fyrr, að efla listnám og leggja aukinn þunga á að Íslandi þrífist öflugt menningarlíf. Sem stjórnmálafólk gerum við það ekki síst með auknum fjárhagslegum stuðningi og stefnumótun sem hjálpar listunum að blómstra.
Grunnstefna Pírata, sem allt starf og allar ákvarðanir okkar byggja á, er jafnframt mjög skýr um það hvernig við ætlum að vinna að því markmiði: „Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.“ Við munum því stunda virkt samráð og samtal við fulltrúa listalífsins enda trúum við því einlæglega að fólkið á vettvangi sé líklegra til að búa yfir réttu svörunum.

Við óskum ykkur alls hins besta og hlökkum til samtalsins á komandi kjörtímabili.

Bestu kveðjur
Stefán Óli Jónsson

starfsmaður Pírata
fyrir hönd Pírata

No Comments

Sorry, the comment form is closed at this time.